Krossmiðlun 2018

Creative data
Skapandi notkun gagna í markaðssetningu
14. sept. kl. 8.30–12.00
Grand Hótel Reykjavík   

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin í fimmta sinn þann 14. september nk. á Grand Hótel Reykjavík, en hún er að þessu sinni helguð skapandi notkun gagna í markaðssetningu. Meðal fyrirlesara verða íslenskir og erlendir sérfræðingar en aðalfyrirlesari verður Baker Lambert, Global Data Director hjá TBWA\Worldwide.

Allsstaðar er verið að safna gögnum. Þekkingin flýtur upp um alla veggi. Upplýsingar sem fyrirtæki og auglýsingastofur geta nálgast um viðskiptavini og í raun hvaðeina sem hugurinn girnist, eru alltumlykjandi. En erum við að nýta þessi gögn til gagns? Hvernig notum við gagnainnsæi á skapandi og árangursríkan hátt?

Baker Lambert
Global Data Director, TBWA\Worldwide

Baker Lambert er Global Data Director hjá TBWA\Worldwide, sem í daglegu starfi blandar saman gagnainnsæi, rökfræði og sköpunargáfu til að hraða á framtíðinni.

Strax í háskóla hóf hann að aðstoða Omniture við þróun vef- og farsímagreininga, eyddi síðan áratug hjá ýmsum fyrirtækjum við þróun og fínstillingu allt frá flugmiðstöðvum til alþjóðlegra fjármálaforrita, en frá 2012 hefur hann unnið að fjölda árangursríkra herferða hjá TBWA, meðal annars fyrir Nissan, Airbnb, Gatorade, Adidas, Twitter og GoDaddy.

Lambert er ekki einhamur maður því í „frítíma“ sínum hefur hann einnig aðstoðað bæði Nasa og SpaceX í ýmsum verkefnum.

Sami Salmenkivi
Global Strategy Director, TBWA\Worldwide

Sami Salmenkivi er yfirmaður stefnumótunar hjá TBWA á heimsvísu. Hann er frumlegur hugsuður og framkvæmdamaður sem vinnur á hinum spennandi vegamótum viðskipta og markaðssetningar, samskipta og hönnunar. Að auki er hann verðlaunaður frumkvöðull og fyrirtækjastofnandi, verðlauna­rithöfundur, hefur fengist við heimildamyndagerð og neðansjávar­myndatökur svo fátt eitt sé nefnt.

Sami hefur yfirgripsmikla þekkingu á viðskiptaaðferðum, vörumerkjum og markaðssetningu á öllum stigum, en með sérhæfingu í stafrænu umhverfi. Þau fyrirtæki og vörumerki sem hann hefur sjálfur hleypt af stokkunum eru mörg hver leiðandi á sínu sviði og sýnileg víða um heim, en hann á meðal annars þátt í velgengni íslensks skyrs í Finnlandi.

Hjá TBWA hefur hann meðal annars unnið að stefnumótun og stórum herferðum fyrir Accenture, Adidas, Apple og Audi, auk fjölda annarra stórfyrirtækja sem ekki byrja á A.

Edda Blumenstein
Retail Consultant & Omni Channel PhD Researcher,
Leeds University Business School

Edda Blumenstein er ráðgjafi í Omni Channel stefnumótun, en ráðgjöf hennar og fræðsla snýr að tækifærum hinnar stafrænu byltingar í verslun og þjónustu. Hún hefur haldið fjölda námskeiða fyrir fyrirtæki um breytta kauphegðun neytenda í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. Með Omni Channel eru þarfir og væntingar viðskiptavina settar í fyrsta sæti og mörkuð skýr stefna um upplifun viðskiptavina á heildarkaupaferlinu.

Elvar Páll Sigurðsson
Sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu, Pipar\TBWA

Elvar Páll Sigurðsson er sérfræðingur og ráðgjafi í stafrænni markaðs­setningu hjá Pipar\TBWA. Þar er hann jafnframt í forsvari fyrir DAN (Digital Arts Network) sem er hluti af alþjóðaneti sérfræðinga TBWA í stafrænni markaðssetningu. Innan teymisins starfa sérhæfðir sérfræðingar í mismunandi öngum hennar.

Auk meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ er Elvar með BS-próf í líffræði frá Auburn-háskóla í Montgomery, en hinn vísindalegi bakgrunnur nýtist vel í núverandi starfi. Áður vann Elvar sem gagnagreinir hjá Þraut efh. og markaðsstjóri hjá RMK ehf.

Greining gagna og skapandi notkun þeirra verður æ mikilvægari fyrir árangur vörumerkja í hinu ört vaxandi stafræna landslagi og Elvar mun fara yfir nokkur góð dæmi.

Sue B Zimmerman
Frumkvöðull og sérfræðingur í markaðssetningu á samfélagsmiðlum

Sue B. Zimmerman er samfélags­miðlasérfræðingur frá Boston sem hefur sérhæft sig í að aðstoða fyrirtæki við markaðs­setningu á samfélagsmiðlum, en þó sérstaklega á Instagram.

Hún er leiðandi á því sviði og gjarnan þekkt sem @TheInstagramExpert.

Sue er öflugur frumkvöðull með 30 ára reynslu úr viðskiptum og hefur átt og stýrt 18 fyrirtækjum síðan hún hóf að selja handmálaðar hárspennur á barnsaldri. Instagram gjörbreytti öllum hennar viðskiptum og hún lumar meðal annars á sögum um hvernig viðskipti jukust um 40% við það eitt að nota Instagram markvisst.

Krossmiðlun

Nýjustu straumar í markaðssetningu

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun var fyrst haldin árið 2012 en markmiðið með ráðstefnunni hefur ávallt verið að horfa til framtíðar að velta upp því nýjasta og heitasta í markaðsmálum og auglýsingatækni hverju sinni. Fjöldi fyrirlesara, erlendra sem innlendra, hafa komið fram á Krossmiðlun og viðburðurinn ævinlega verið vel sóttur af markaðsfólki, jafnt auglýsendum, sem auglýsingafólki, háskólanemum og öðru áhugafólki um nýjustu stefnur og strauma.

Krossmiðlun er haldin af Pipar \TBWA. Ábyrgðaraðili er Eignarhald ehf., kt. 501073-0249.