Krossmiðlun
2019

13. september
Grand Hótel Reykjavík

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin í sjötta sinn þann 13. september nk. á Grand Hótel Reykjavík. Meðal fyrirlesara verða íslenskir og erlendir sérfræðingar en aðalfyrirlesari verður John Hunt, Creative Chairman hjá TBWA\Worldwide.
Húsið verður opnað kl. 8.00. Ráðstefnan hefst kl. 8.30 og stendur til kl. 12.00

Kaupa miða

Verð: 18.900 kr. 

Þú þarft að samþykkja skilmála til að ljúka miðakaupum.
Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.

John Hunt

John Hunt verður aðalfyrirlesari á Krossmiðlun 2019. Hann er Creative Chairman hjá TBWA\Worldwide – en þá er ekki öll sagan sögð.

John Hunt er fæddur í Zambíu. Árið 1983 stofnuðu hann og félagar hans stofuna TBWA\Hunt\Lascaris undir einkunnarorðunum: Life's too short to be mediocre. Stofan er í dag í fararbroddi auglýsingastofa á heimsvísu og hefur hlotið viðurkenningar á borð við auglýsingastofa aldarinnar árið 2000 og auglýsingstofa áratugarins 2010, en það sama ár varð herferð fyrir dagblaðið The Zimbabwean að mest verðlaunuðu herferð allra tíma.

John tók ríkan og persónlegan þátt í kynningarstarfi og kosningabaráttu Nelson Mandela fyrir forsetakosningarnar 1993 og sýndi þannig fram á að auglýsingar geta svo sannarlega gert heiminn að betri stað. Eftirleikinn þekkja flestir. Suður-Afríka hafði á þessum tíma gengið gegnum afar erfiða tíma en í kjölfar hinna sögulegu kosninga mjakaði hið særða samfélag sér í átt að sátt og lýðræði.

Lesa meira

Árið 2003 fluttist John til New York, tók þar við starfi sem Worldwide Creative Director og hélt áfram á lofti hugmyndafræði sinni: Snilldin liggur ekki í auglýsingunum sjálfum heldur í hugmyndunum að baki þeim. Við komuna til NY kom hann á fót Young Bloods-verkefninu en í því felst að fela ungu og óreyndu fólki erfið, krefjandi og raunveruleg verkefni, þvert á þá venju að láta starfsnema byrja á botninum. Pipar\TBWA setti sitt eigið Young Bloods-verkefni á laggirnar árið 2014 og út úr því komum við öll reynslunni ríkari.

2006 fluttist John aftur til Suður-Afríku og sinnir vinnu sinni fyrir TBWA\Worldwide að mestu frá Jóhannesarborg.

Hunt hefur setið í fjölmörgum nefndum og akademíum stærstu verðlaunahátíða heimsins, til að mynda sem formaður Cannes Film, Press & Outdoor Advertising Festival árið 2005. Til viðbótar hefur hann skrifað leikrit, bækur og fyrir sjónvarp. Hann var útnefndur sem leikskáld ársins í Suður-Afríku fyrir verk sitt Vid Alex, verk sem fordæmdi harkalega ritskoðun á tímum aðskilnaðaráranna og vakti gríðarlega athygli.

‍Við hvetjum allt áhugafólk um skapandi hugsun til að lesa bók Hunt, The Art of the Idea: And How It Can Change Your Life. Sú lesning er fullkomin upphitun fyrir fyrirlesturinn hans á Krossmiðlun þann 13. september 2019.

Lesa minna

MARK SCHAEFER

Mark W. Schaefer fæddist í Pittsburgh í Pennsylvaníu árið 1960 og verður því sextugur á næsta ári. Nú á gullöld samfélagsmiðla þykir fólk á þeim aldri ekki líklegast til sérstakra afreka, ekki við notkun miðlanna og enn síður við mótun þeirra. Mark er því oft kallaður „gamli maðurinn“ í samhengi við starf sitt en hann er einn virtasti samfélagsmiðla- og markaðssérfræðingur heims.

Mark Schaefer er afar reyndur fyrirlesari sem kemur efninu og skoðunum sínum frá sér á skemmtilegan og kröftugan hátt. Því er mikill akkur í því að fá hann á Krossmiðlun þann 13. september 2019. Þar lætur hann þó ekki staðar numið því Schaefer ferðast um heim allan sem ræðumaður, leiðbeinandi og ráðgjafi. Hann er metsölurithöfundur, heldur úti öflugu bloggi, afar vinsælu podcasti og er tíður gestur í útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum á borð við Wall Street Journal, Wired, The New York Times, CNN, National Public Radio, CNBC, BBC og CBS NEWS og er reglulegur dálkahöfundur hjá The Harvard Business Review. Þá hefur hann komið að stórum markaðsherferðum fyrir ótal stofnanir og fyrirtæki, til að mynda Adidas, Johnson & Johnson, Dell, Pfizer, The U.S. Air Force, og bresku ríkisstjórnina.

Lesa meira

Hvar sem hann stígur niður fæti talar Schaefer um mikilvægi samtalsins við neytandann og efnið sem miðla skal, en dregur í efa gildi og framtíð „hefðbundinna“ auglýsingamiðla. Nýjasta bók hans, Marketing Rebellion – The Most Human Company Wins, hefur hlotið fádæma góðar viðtökur. Þar leggur Schaefer út frá þeirri hugmynd að fyrirtæki samtímans geti ekki með nokkru móti keypt sig inn í huga viðskiptavina sinna heldur sé uppbygging trausts lykillinn að velgengni. Okkar verkefni sé að hleypa fólki að vörunni á réttan hátt, koma trúverðuglega fyrir og leyfa síðan almenningi að vinna markaðsvinnuna fyrir okkur eftir að við höfum sannfært sem flesta einstaklinga og fengið í lið með okkur. Bókin er afar skemmtileg aflestrar og óhætt að mæla með henni, sem og blogginu hans {grow} og podcastinu Marketing Companion Podcast. Allt þetta og miklu fleira má kynna sér á vefsíðu Schaefers https://businessesgrow.com.

Lesa minna

BYLGJA PÁLSDÓTTIR

Bylgja Pálsdóttir verður einn af fyrirlesurum Krossmiðlunar, en hún er markaðsstjóri og umsjónarmaður almannatengsla hjá Skaginn 3X.

Bylgja er fædd í Reykjavík en hefur búið erlendis mestan hluta ævinnar. Fimm ára gömul flutti hún til Dubai við Persaflóa og bjó þar í tvö ár. Þaðan flutti fjölskyldan til Tenerife á Kanaríeyjum og bjó þar í eitt ár. Lengst bjó hún á Mallorca á Spáni, eða þar til hún hóf háskólanám, fyrst í Barcelona og síðan Portsmouth á Englandi.

Bylgja er með BA-próf í markaðsfræðum og tungumálum frá Portsmouth University, sem hefur nýst henni sem góður grunnur undir skapandi og spennandi störf í viðskiptalífinu.

Lesa meira

Skaginn 3X er eftirtektarvert fyrirtæki sem vinnur mikið á erlendum mörkuðum, ekki síst Noregi og Rússlandi. Það varð til við sameiningu þriggja fyrirtækja; Skagans hf. og Þorgeirs og Ellerts hf. á Akranesi og 3X Technology á Ísafirði. Skaginn 3X framleiðir og selur sérsniðnar hátæknilausnir fyrir matvælaiðnað á alþjóðamarkaði.

Tæknistigið er hátt og starfsmenn eru rúmlega 300 talsins í starfsstöðvum sem eru um 14.000 fermetrar. Starfsemin hefur vaxið mjög síðustu misseri en frumkvöðla- og nýsköpunarandinn hefur viðhaldist allt frá fyrsta degi. Áhersla er lögð á að bjóða gæðavörur og ryðja braut nýrrar tækni sem færir viðskiptavinum og umhverfinu verulegan ávinning.

Skaginn 3X hefur hlotið bæði Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Nýsköpunarverðlaun Íslands.

Lesa minna

STELLA SAMÚELSDÓTTIR

Stella Samúelsdóttir er framkvæmdastýra Un Women á Íslandi. Þar hefur hún yfirumsjón með verkefnum og daglegum rekstri ásamt því að vera talskona samtakanna. Hún er mann­fræðing­ur með mennt­un á meist­ara­stigi í op­in­berri stjórn­sýslu, alþjóðasam­skipt­um og hag­fræði.

Stella hef­ur meira og minna verið búsett erlendis síðustu 15 árin. Fyrst á Ítalíu, svo í Malaví og loks í Bandaríkjunum. Hún hefur víðtæka starfs­reynslu bæði á sviðum þró­un­ar­sam­vinnu, rekst­urs og viðskipta. Hún starfaði í fimm ár á veg­um Þró­un­ar­sam­vinnu­stofn­un­ar Íslands í Mala­ví og seinna sem sér­fræðing­ur hjá fasta­nefnd Íslands hjá Sam­einuðu þjóðunum í New York þar sem hún tók þátt í hinum ýmsu samn­ingaviðræðum fyr­ir hönd Íslands á alls­herj­arþingi Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal var hún þátt­tak­andi í samningaviðræðum um stofn­un UN Women.

Hún hef­ur einnig starfað sem sjálf­stæður ráðgjafi í þró­un­ar­mál­um sem og rekið eigið fyr­ir­tæki í Banda­ríkj­un­um.

ÓLAFUR STEINARSSON

Rafíþróttir hafa verið að ryðja sér til rúms sem er ný og áhugaverð leið til að ná til ákveðinna markhópa. Ólafur Steinarsson hefur unnið í leikjaiðnaðinum í 7 ár, mestmegnis að rafíþróttum, fyrst hjá CCP Games og síðar hjá Riot Games. Hjá CCP sá Ólafur um mót og beinar útsendingar fyrir EVE Online, m.a. frá Fanfest-hátíðinni.

Eftir að hann flutti sig til Riot Games í Dublin vann Ólafur að því að byggja upp rafíþróttaumhverfi í háskólum víðsvegar um Evrópu áður en hann skipti um hlutverk og leiddi teymi í þróun á nýjum vörum og þjónustu í kringum League of Legends. Undir lok tímabilsins hjá Riot, leiddi Ólafur þróun mótavettvangs sem gerði starfsstöðvum víðsvegar kleift að skipuleggja keppnir og útsendingar á sínu markaðssvæði. Það verkefni náði til 11 landa á 15 tungumálum. Síðustu 14 mánuði hefur Ólafur einblínt á uppbyggingu á heilbrigðri umgjörð í kringum rafíþróttir á Íslandi, m.a. hjá Rafíþróttasamtökum Íslands sem og Rafíþróttaskólanum.

JEWELLS CHAMBERS

Jewells Chambers verður ráðstefnustjóri á Krossmiðlun 2019 en hún stýrir stafrænni stefnumótun hjá Pipar\TBWA og dótturfyrirtæki þess, The Engine.

Jewells sá um stefnumótun og efnismarkaðssetningu hjá Icelandic Mountain Guides (Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum) árin 2016–2019. Jewells hefur mikla reynslu og þekkingu í stafrænni markaðssetningu, en áður en hún kom til Íslands starfaði hún í New York m.a. hjá ClickZ Group & SES, Opal Summits, The Glass Hammer og The White House Project.

Jewells er fædd og uppalin í Brooklyn í New York en hún flutti til Íslands fyrir 3 árum. Utan vinnu stundar Jewells fjallgöngur og heldur úti hlaðvarpi um Ísland.

Krossmiðlun

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun var fyrst haldin árið 2012 en markmiðið með ráðstefnunni hefur ávallt verið að horfa til framtíðar og velta upp því nýjasta og heitasta í markaðsmálum og auglýsingatækni hverju sinni. Fjöldi fyrirlesara, erlendra sem innlendra, hafa komið fram á Krossmiðlun og viðburðurinn ævinlega verið vel sóttur af markaðsfólki, jafnt auglýsendum, sem auglýsingafólki, háskólanemum og öðru áhugafólki um nýjustu stefnur og strauma.

Krossmiðlun er haldin af Pipar\TBWA, Guðrúnartún 8, 105 Reykjavík, +354 510 9000, pipar@pipar-tbwa.is.
Ábyrgðaraðili er Eignarhald ehf., kt. 501073-0249.