Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#100
6/9/2018
KROSSMIÐLUN 2018
Stelpurnar okkar fylltu völlinn
Silfurdrengurinn hefur engu gleymt
KROSSMIÐLUN 2018

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin í fimmta sinn þann 14. september nk. á Grand Hótel Reykjavík, en hún er að þessu sinni helguð Creative Data – eða skapandi notkun gagna í markaðssetningu.

Allsstaðar er verið að safna gögnum. Þekkingin flýtur upp um alla veggi. Upplýsingar sem fyrirtæki og auglýsingastofur geta nálgast um viðskiptavini og í raun hvaðeina sem hugurinn girnist, eru alltumlykjandi. En erum við að nýta þessi gögn til gagns? Hvernig notum við gagnainnsæi á skapandi og árangursríkan hátt?

Aðalfyrirlesari verður Bandaríkjamaðurinn Baker Lambert, Global Data Director hjá TBWA\Worldwide, sem í daglegu starfi blandar saman gagnainnsæi, rökfræði og sköpunargáfu til að hraða á framtíðinni.

Lambert er „gagnanörd“ af guðs náð með gríðarlega fjölbreytta reynslu og mikla þekkingu á málefninu. Strax í háskóla hóf hann að aðstoða Omniture við þróun vef- og farsímagreininga, eyddi síðan áratug hjá ýmsum fyrirtækjum við þróun og fínstillingu allt frá flugmiðstöðvum til alþjóðlegra fjármálaforrita, en frá 2012 hefur hann unnið að fjölda árangursríkra herferða hjá TBWA, meðal annars fyrir Nissan, Airbnb, Gatorade, Adidas, Twitter og GoDaddy.

‍Lambert er ekki einhamur maður því í „frítíma“ sínum hefur hann einnig aðstoðað bæði Nasa og SpaceX í ýmsum verkefnum.

Finninn Sami Salmenkivi er yfirmaður stefnumótunar hjá TBWA á heimsvísu. Frumlegur hugsuður og framkvæmdamaður með yfirgripsmikla reynslu af öllum mögulegum hliðum viðskipta, markaðssetningar, samskipta og hönnunar, með sérhæfingu í hinu stafræna umhverfi. Og svo er hann heimildamyndagerðarmaður, neðansjávarljósmyndari og verðlaunarithöfundur svo fátt eitt sé nefnt.

Sue B. Zimmerman er samfélagsmiðlasérfræðingur frá Boston sem hefur sérhæft sig í að aðstoða fyrirtæki við markaðssetningu á Instagram. Hún er leiðandi á því sviði og gjarnan þekkt sem @TheInstagramExpert. Sue er öflugur frumkvöðull með 30 ára reynslu úr viðskiptum og hefur átt 18 fyrirtæki síðan hún hóf að selja handmálaðar hárspennur 13 ára. Instagram gjörbreytti öllum hennar viðskiptum.

Edda Blumenstein er ráðgjafi í Omni Channel stefnumótun, en ráðgjöf hennar og fræðsla snýr að tækifærum hinnar stafrænu byltingar í verslun og þjónustu. Hún hefur haldið fjölda námskeiða fyrir fyrirtæki um breytta kauphegðun neytenda í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. Omni Channel snýst um að setja þarfir og væntingar viðskiptavina í fyrsta sæti og skýra stefnu varðandi upplifun á kaupferli.

Okkar eigin Elvar Páll Sigurðsson er sérfræðingur og ráðgjafi í stafrænni markaðssetningu hér hjá Pipar\TBWA. Hann er jafnframt í forsvari fyrir DAN-deildina okkar, en DAN, eða Digital Arts Network, er alþjóðanet sérfræðinga TBWA í stafrænni markaðssetningu um allan heim.

Ráðstefnustjóri verður Nútímamaðurinn og sjónvarpsstjarnan Atli Fannar Bjarkason.

Við erum gríðarlega ánægð með að hafa náð saman þessum flotta hópi fyrirlesara og hlökkum til að eyða deginum með ráðstefnugestum á Grand Hóteli – og ekki síður í eftirspjallinu í hinu árlega Krossmiðlunarpartíi í Kaaberhúsinu.

Kaupa miða á Krossmiðlun 2018

Stelpurnar okkar fylltu völlinn

Nýjasta KSÍ verkefnið okkar var fyrir knattspyrnulandslið kvenna. Áskorunin var mikil fyrir íslenska landsliðið enda Þýskaland ein sterkasta knattspyrnuþjóð heims. Markmiðið var að fylla völlinn og sýna þannig liðinu þann stuðning sem það á skilið.

Við framleiddum nokkur myndbönd þar sem við báðum leikmenn að færa það í orð hvað góður stuðningur skiptir miklu máli. Og spurðum líka nokkra gallharða stuðningsmenn afhverju þeir styddu landsliðið.

Myndböndin voru aðeins keyrð á samfélagsmiðlum þar sem þau fengu mikla dreifingu og áhorf. Tónninn var sleginn í fyrsta myndbandinu með Hallberu Gísladóttur, landsliðskonu þar sem hún segir, „okkar draumur er að fylla völlinn, gerum þetta saman“.

Og þjóðin gerði þetta svo sannarlega saman, í fyrsta skipti í íslenskri knattspyrnusögu var uppselt á leik íslenska kvennalandsliðsins og það nokkrum dögum áður. Fyrir leik sagði Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði liðsins að þetta hefði tekist þrátt fyrir að það hefði næstum ekkert verið auglýst. Þegar vel tekst til með efni og skilaboð á samfélagsmiðlum þá finnst fólki stundum eins og ekkert hafið verið auglýst.


Verkefnið

Silfurdrengurinn hefur engu gleymt

Olís-deildir karla og kvenna eru að hefjast, karlar mæta til leiks næstkomandi sunnudag og konur 15. september. Jafnframt eru 10 ár liðin frá því handboltastrákarnir okkar unnu silfur á Ólympíuleikunum í Peking. Til að minnast silfursins og hita upp fyrir Olís-deildirnar gerðum við myndband þar sem fulltrúar silfurdrengjanna kepptu við fulltrúa núverandi Íslandsmeistara í leik sem vissulega tengdist handbolta. Myndbandið var unnið í samstarfi við framleiðslufyrirtækið KALT.


Myndbandið

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.