Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#88
7/9/2017
Hringleikahús stafrænnar markaðssetningar
Takk mamma! Takk Ísland!“
Við erum að tala um þig
Valdís í sölupakkningum
Á allra vörum 2017
Krossmiðlun 2017
Hringleikahús stafrænnar markaðssetningar

Á þeirri upplýsingaöld sem við lifum er þráin eftir að vita af öllu nýju yfirþyrmandi – og við viljum vita það núna! Strax og undir eins! Í auglýsingalandi keppast vörumerki eins og skylmingaþrælar í hringleikhúsi upplýsingasöfnunar um að vera fyrst til að nýta það nýjasta í markaðssetningu sinni.

Sumum gengur vel og sumum ekki, enda geta ekki allir verið fyrstir.

En með allri áherslunni sem lögð er á gagnasöfnun eigum við á hættu að tapa ákveðnu tilfinningalegu gildi. Sama hversu tölvustýrðar markaðsaðferðir við ráðumst í megum við aldrei gleyma því að í grunninn erum við manneskjur að tala við aðrar manneskjur. Í raun mætti færa rök fyrir því að nýlegt auglýsingaskilti á Lækjartorgi hafi verið búið til af einhverjum algóritma sem reiknaði út hvar flesta vegfarendur mætti finna á höfuðborgarsvæðinu og hvaða tungumál flestir þessara neytenda gátu skilið. Útkoman: Gríðarstór, ólöglegur innkaupapoki með enskri áletrun sem var fjarlægður tveimur dögum seinna.

Þrátt fyrir að tæknin geti hjálpað okkur að nálgast neytendur á ýmsa þá vegu sem við höfum aldrei getað áður þá þurfum við samt að passa okkur að reka þá ekki í réttir eins og kindur á haustin. Við verðum að bera virðingu fyrir þeim. Þetta skilja hvað best þeir markaðsmenn sem náð hafa lengst á sviðum tækninnar eins og aðalfyrirlesari á Krossmiðlun 2017, Rohit Thawani, en hann er yfir allri stafrænni stefnumótun og samfélagsmiðlamarkaðssetningu auglýsingastofunnar TBWA/Chiat/Day í Los Angeles. Í Hörpu, 15. september næstkomandi mun Thawani leiða okkur í gegnum það nýjasta í markaðssetningu á netinu en hann hefur áður unnið fyrir alþjóðleg vörumerki á borð við Apple, Coca-Cola, Netflix, Nissan o.fl.

Við erum öll stödd í hringleikhúsinu og þá er um að gera að vera fyrstur. Tryggðu þér miða á Krossmiðlun á harpa.is.

Takk mamma! Takk Ísland!“

Domino's hefur stutt dyggilega við bakið á íslenskum körfubolta undanfarin misseri og í tilefni af því að íslenska karlalandsliðið í körfubolta tekur nú þátt í Evrópukeppninni í annað sinn, var ráðist í gerð sjónvarpsauglýsingar. Þar þakka leikmenn á óvæntan hátt sínum helstu stuðningsmönnum, mæðrum sínum. Skot framleiddi og Allan Sigurðsson leikstýrði.

Verkefnið

Við erum að tala um þig

Haustherferð Stöðvar 2 setur áhorfandann í aðalhlutverk en þar bjóða helstu stjörnur stöðvarinnar áhorfandanum að vera með í gleðinni. Lag Jóhanns G. Jóhannssonar, Ég er að tala um þig, var sérstaklega endurgert fyrir auglýsinguna og sungið af dagskrárþul stöðvarinnar, Björgvini Halldórssyni, eins og frumútgáfan 1978. Republik framleiddi og Magnús Leifsson leikstýrði.

Verkefnið

Valdís í sölupakkningum

Ísbúðin Valdís sló rækilega í gegn þegar hún var opnuð vorið 2013 en ísbúðin sérhæfir sig í heimalöguðum kúluís af girnilegra taginu. Emmessís hefur nú gengið til samstarfs við Valdísi og framleiðir fjórar gerðir af þessum vinsæla ís í sölupakkningum, eftir ströngustu uppskrift þaðan. PIPAR\TBWA hannaði pakkningar fyrir þetta fallega samstarf.

Verkefnið

Á allra vörum 2017

Á allra vörum átakið 2017, Byggjum von um betra líf, er söfnun fyrir Kvennaathvarfið til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir konur og börn sem flúið hafa heimilisofbeldi. Átakið í ár er það sjöunda sem við tökum þátt í með Á allra vörum. Sjónvarpsauglýsinguna gerðum við með Skot sem framleiddi og Þóru Hilmarsdóttur sem leikstýrði.

Verkefnið

Krossmiðlun 2017

Ásamt Rohit Thawani stíga einnig á svið fleiri frábærir fyrirlesarar á Krossmiðlun. Valgeir Magnússon, stjórnarformaður PIPARS\TBWA, Ghostlamp og Nordic Angling flytur fyrirlesturinn „Í gegnum áhrifavalda“, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, fyrrverandi forstjóri Gray Line og Pizza Hut flytur fyrirlesturinn „Haltu mér, slepptu mér – nýr veruleiki í markaðsmálum og ferðaþjónustu“ og Dr. Valdimar Sigurðsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði flytur fyrirlesturinn „Smásala: Horft til framtíðar“.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.