Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#94
1/3/2018
Mótorolía eða ilmkerti?
Sjúk ást hjá Stígamótum
Segðu það upphátt
Fylgstu með Svöngukeppninni 2018
Nýtt fólk á Pipar\TBWA
Mótorolía eða ilmkerti?

Ætli það hafi góð áhrif á mig að sjá fyrirtæki nefna komu lóunnar á samfélagsmiðlinum sínum? Líkar mér þá betur við fyrirtækið – að því gefnu að ég sé hrifinn af lóum?

Þegar framleiða á efni fyrir samfélagsmiðla er gott að hafa í huga hvers vegna fólk er á samfélagsmiðlum til að byrja með. Eðli þessara miðla er byggt á persónulegum samskiptum milli fólks og þar af leiðandi eru fyrirtæki ekki sérlega velkomin. Ekki sjálfkrafa í það minnsta. Fæstir af þeim sem sóttu Facebook í snjallsímann gerðu það til að lesa stöðuuppfærslur frá banka eða fyrirtæki sem selur útivistarfatnað.

Gott efni er samt alltaf í fullu gildi og ef eitthvað sem vörumerki birtir á sínum miðli hreyfir við neytandanum eða gerir daginn skemmtilegri þá er honum sennilega sama hvaðan gott kemur. Og að sama skapi er líklegt að lélegt efni sem hentar ekki tilefninu geti vakið neikvæð hughrif hjá neytandanum. Facebook-leikir eru vissulega ágæt leið til þess að vekja athygli á samfélagsmiðlum svo lengi sem leikurinn endurspeglar vörumerkið sjálft. En gosdrykkjaframleiðandi sem gefur fólki mótorolíu og tölvuframleiðandi sem splæsir ilmkertum eru á hálum ís.

Fólk notar snjallsímana sína til þess að sjá efni sem auðgar tilveruna. Þegar best lætur eru vörumerki „persónur“ með tón, fas, útlit og síðast en ekki síst rödd. Um leið og fyrirtækið hefur áttað sig á því hvernig vörumerkið á að tala við markhópinn er hægt að framleiða efni sem endurspeglar vörumerkið á samfélagsmiðlavænan hátt. Þá loksins hlýtur vörumerkið „leyfi“ frá markhópnum fyrir tilveru sinni á samfélagsmiðlum.

Vonandi.


Sjúk ást hjá Stígamótum

Í febrúar stóðu Stígamót fyrir fræðsluátakinu Sjúk ást og fengu okkur í lið með sér til að vinna kynningarefni, vefsíðu, myndbönd og ýmsan varning. Tilgangurinn með Sjúk ást herferðinni er að gera ungt fólk meðvitaðra um mismunandi birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum. Mikilvægur liður í því er að bæta kynfræðslu í grunnskólum en á www.sjukast.is var hægt að skrifa undir áskorun þess efnis til menntamálaráðuneytisins. Stígamót eiga allt heimsins hrós skilið fyrir þau erfiðu en mikilvægu verkefni sem þau vinna í þágu samfélagsins alls og það er einstakur heiður fyrir okkur á stofunni að geta verið þeim innan handar.

Verkefnið

Segðu það upphátt

Olísdeildin og Píeta samtökin, sem einbeita sér að forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, tóku höndum saman í vitundarvakningu og söfnun fyrir samtökin. Samin var sérstök yfirlýsing fyrir Píeta sem nokkrar af skærustu stjörnum Olísdeildarinnar voru fengnar til að fara með í sjónvarpsauglýsingu, auk þess sem táknræn atöfn fyrir leiki í deildinni var tileinkuð átakinu. Málefnið er erfitt og viðkvæmt, en það var virkilega gefandi að fá að taka þátt í því með Olís, Píeta og HSÍ, og handboltafólkið stóð sig frábærlega.

Verkefnið


Fylgstu með Svöngukeppninni 2018

Þegar þetta er skrifað er þjóðfélagið í fullum undirbúningi fyrir einn stærsta sjónvarpsviðburð ársins á Íslandi, Söngvakeppni Sjónvarpsins. Í tilefni af því gerðum við samfélagsmiðla- og útvarpsauglýsingar þar sem nokkrar af ástsælustu máltíðum KFC stíga á stokk og sýna hvað í þeim býr. Í Svöngukeppninni 2018 keppa lög á borð við Lund me tender í flutningi kjúklingalunda, Inní mér Zinger vitleysingur með Zinger borgara og Fly on the Hot Wings of love með Hot Wings (augljóslega).

Verkefnið

Nýtt fólk á Pipar\TBWA

Á síðustu mánuðum hefur heldur betur bæst í flokkinn okkar, fólk sem býr að mikilli reynslu í sínum greinum, þó sum séu ung að árum. Talið frá vinstri: Ásdís María Rúnarsdóttir birtingaráðgjafi, Sylvía Kristjánsdóttir grafískur hönnuður, Bjarni Benediktsson markaðsráðgjafi, Snorri Sturluson leikstjóri/hugmyndasmiður, Bjarki Björgvinsson grafískur hönnuður, Jonas Moody textasmiður, Hera Sólveig Ívarsdóttir vefbirtinga- og samfélagsmiðlaráðgjafi, Hrafnkell Konráðsson sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu og Lydia Holt textasmiður.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.