Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#93
1/2/2018
Getur markaðsstarf orðið listrænt meistaraverk?
Eldað úti í -6° C
Spáðu í afsláttinn
Áhrifavaldar um allan heim
Netauglýsingar náðu yfirhöndinni 2017
Getur markaðsstarf orðið listrænt meistaraverk?

Febrúar er loksins mættur og það er mál æði margra að janúar hafi verið með lengsta móti. Við á Pipar\TBWA erum einmitt á því líka. Janúar var kaldur, umhleypingasamur og dimmur. Lífsspekin „núvetur“ hefur verið okkur gagnleg, hún gengur út á að njóta myrkursins og kuldans og reyna að átta sig á jákvæðu hliðunum við þetta allt. Myrkrið lýsist upp og í stað þess að hrylla okkur yfir kuldanæðingi er einfaldast að klæða sig vel og fara út. Þá er kannski ekki eins kalt og maður hélt.

Á dögunum heyrðum við pistil á Rás 1 sem heitir Pólitík í Pizzulandi. Höfundurinn, Halldór Armand Ásgeirsson, spáir í hvernig alþjóðlegri skyndibitakeðju, Domino’s í þessu tilfelli, hefur tekist að gera pizzu að „samfélagslegu hreyfiafli á Íslandi“. Domino’s sameini einfaldlega þjóðina, viðurkenningin sé algjör. Um leið veltir hann fyrir sér hvort að einsleitni samfélagsins eigi sinn þátt í því og telur að svona gæti hvergi gerst nema hér. Velgengni Góðgerðarpizzunnar sjálfrar kristallist í „…okkar eigin hugsjóna- og inntakslausa lífsstíl“, við getum látið gott af okkur leiða og fengið góða pizzu í leiðinni. Hann vill ennfremur meina að hér sé aðeins um snjalla auglýsingaherferð að ræða, auglýsingatækifæri sem eigi ekkert skylt við góðverk. Eða eins og hann orðar sjálfur: „Bara mjög snjöll branding-vinna, eins og það væri kallað í auglýsingaheiminum.“ Ja, við ætlum ekki að mótmæla því. Verkefni okkar í þessu samhengi er að koma skilaboðum á framfæri í búning. Skemmtilegur pistill sem vert er að lesa.

Eldað úti í -6° C

Nýlega framleiddum við fjögur myndbönd fyrir Facebook-síðu Live Icelandic með Hafliða Halldórssyni, matreiðslumeistara og meðlimi íslenska kokkalandsliðsins. Tilgangur myndbandanna er að sýna ferskt íslenskt hráefni eldað við alíslenskar aðstæður en í fyrsta myndbandinu má sjá ungan kappa taka sundsprett í ísköldum sjónum og síðan ylja sér með heitri fiskisúpu sem Hafliði eldar á ströndinni. Í öðru myndbandi hefur matreiðslumeistarinn komið sér fyrir við Esjurætur þar sem hann útbýr skonsu með reyktri bleikju, piparrót og pikkluðum lauk í nesti fyrir göngugarpa dagsins. Allar tökurnar fóru fram utandyra í -6°C og gengu bara vel, þrátt fyrir nístandi kulda.

Verkefnið

Spáðu í afsláttinn

Handboltalandslið karla keppti á EM í Króatíu í janúar. Olís, sem hefur verið aðalstyrktaraðili handboltans hér heima í nokkur ár, efndi til afsláttarleikjar og fékk nokkrar af boltastjörnum Olís-deildarinnar til að spá í afsláttinn með sér. Markafjöldi Íslands í leikjum á EM réði afslættinum. Hægt var að senda inn sína eigin spá á netinu – og vinna ferð á alla leiki Íslands í Split.

Verkefnið

Áhrifavaldar um allan heim

Á dögunum unnum við kynningarmyndband fyrir Ghostlamp, fyrirtæki sem leitar uppi áhrifavalda um allan heim til að kynna vörur og þjónustu. Myndbandið er grafískt, tæpar tvær mínútur að lengd og skýrir hvernig þjónustu Ghostlamp er háttað. Fyrirtækið sem er með aðstöðu á Íslandi, New York og Svíþjóð, hefur smíðað hugbúnað sem auðveldar leit að áhrifavöldum á hverjum stað sem og utanumhald herferða. Áhrifavaldarnir fá greitt í samræmi við hvernig þeim tekst að koma skilaboðum til skila en það er einnig hægt er að skoða með hjálp hugbúnaðarins.

Verkefnið

Netauglýsingar náðu yfirhöndinni 2017

Auglýsingamarkaðurinn breytist hratt um þessar mundir og staða vefbirtinga hjá viðskiptavinum okkar styrkist ört á kostnað hefðbundnu prent- og sjónvarpsmiðlanna. Þessi þróun er reyndar algjörlega í takt við það sem á sér stað úti í heimi.

Skoðum aðeins hvernig birtingafé Pipars\MEDIA skiptist á liðnu ári að meðaltali: Vefmiðlar voru þar efstir á blaði með 33 prósent hlutdeild á móti 27 prósentum árið áður. Dagblöðin voru með 24 prósent af heildarbirtingakökunni, sú sneið minnkaði töluvert en hún var 28 prósent árið áður. Sjónvarp kom fast á hæla dagblaðanna með 23 prósent á móti 25 prósentum árið áður. Útvarpsbirtingarnar stóðu hins vegar í stað milli ára með 17 prósent. Vefbirtingar fá sífellt stærri hlut og um leið eykst hlutdeild erlendra netauglýsinga eins og á Google, Facebook, Instagram og YouTube stöðugt. Birtingar á erlendum vefmiðlum ásamt umsjón og vinnu við samfélagsmiðla fór í 52 prósent af vefbirtingum. Það er stórt stökk frá síðasta ári þegar sú tala var 39 prósent. Þetta teljast töluverð tíðindi og á meðfylgjandi kökuritum er hægt að glöggva sig á þessum tölum frekar.

Mögulega kannast einhverjir lesenda okkar við að eyða heilu og hálfu kvöldunum (jafnvel dögunum) í að góna á skjá snjalltækis, skoða stuðið/tuðið á samfélagsmiðlunum og gleypa í sig fréttamiðlana. Auðvitað er fullt af auglýsingum; vefborðum, Google-auglýsingum, Facebook-auglýsingum á þeirri leið ... meira að segja inn í manns eigin messenger. Já, við finnum rétta fólkið, veriði viss.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.